Starfsfólkið

Það er stefna TM að starfsfólk félagsins sé það færasta á sínu sviði enda fær það tækifæri til þess að þróast og tekur þátt í samfélaginu á ábyrgan og uppbyggilegan hátt.

Jafnlaunavottunin veitir gott aðhald

Í lok síðasta árs hlaut TM jafnlaunavottun VR en hún staðfestir að karlar og konur innan fyrirtækisins fá sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vottunin var veitt að undangenginni úttekt á launum, flokkun starfa og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör, samhliða því sem ferlar í tengslum við laun og launaákvarðanir voru skjalfestir samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.


Ragnhildur Ragnarsdóttir,
forstöðumaður mannauðs
og innri samskipta TM

Ragnhildur Ragnarsdóttir, forstöðumaður mannauðs og innri samskipta hjá TM, segir það gleðiefni að vottunin hafi fengist. „Stjórn og starfskjaranefnd fyrirtækisins höfðu frumkvæði að því að við sóttumst eftir jafnlaunavottun og það var mjög gott að finna þann mikla áhuga sem þar var á verkefninu. Til þess að öðlast vottunina þurftum við að fara í tilteknar úttektir og innleiðingu verkferla. Störfum innan fyrirtækisins var raðað í flokka eftir stöðu í skipuriti, hæfniþáttum starfa og  menntun starfsfólks, auk þess sem starfsaldur og fleira var vegið inn. Samhliða var svo skjalfest og tekið upp sérstakt jafnlaunakerfi sem festir í sessi þann vilja stjórnar og stjórnenda að greiða körlum og konum sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Starfskjaranefnd hefur svo eftirlit með að kerfið virki.“

Ragnhildur segir að jafnlaunakerfið og vottunin veiti stjórnendum mikilvægt aðhald varðandi launaákvarðanir, þær verði að rúmast innan ákveðins ramma og þarfnist rökstuðnings við. Ekki sé því hægt að breyta kjörum eða hlunnindum „af því bara“.



Hlutföll kynja meðal stjórnenda



Þróun á hæfni og virk þekkingar- og upplýsingamiðlun

TM leggur ríka áherslu á að laða fram það besta í starfsfólki og auka hæfni þess á ýmsum sviðum. Í því skyni er boðið upp á margs konar námskeið og upplýsingum er miðlað með skipulögðum hætti. Ragnhildur segir að miklar breytingar hafi orðið í þeim efnum á skömmum tíma.

„Ein stærsta áskorunin í mannauðsmálum er þekkingarmiðlun. Að draga fram þekkingu, upplýsingar og vitneskju sem fólk býr yfir í krafti menntunar og starfsreynslu og fá það til að miðla til samstarfsmanna. Við höfum því verið virk í að „tappa“ af fólki, ef svo má segja, og fá það til að miðla inn á við.“

Að sögn Ragnhildar hefur skilningur á mikilvægi þekkingarmiðlunar aukist á síðustu árum hjá TM.   „Okkur hefur að vissu leyti tekist að breyta menningunni, frá því að benda þurfti fólki á að upplýsingar ættu erindi við aðra en nú er staðan þannig að fólk áttar sig sjálft, í meira mæli, á að miðla beri vitneskju og gerir það að eigin frumkvæði. Þetta er mikilvægt af ýmsum ástæðum en ekki síst þeirri að áður fyrr hvarf þekking með fólki þegar það lét af störfum en áherslan núna er á að þekkingin verði eftir í fyrirtækinu.“

Upplýsingum er ýmist miðlað á innri vef TM, á reglulegum starfsmanna- og deildafundum eða í fyrirlestrum sem starfsfólk heldur á námskeiðum undir merkjum TM-skólans. „Útgangspunkturinn er að allir hafi aðgang að sömu upplýsingum á sama tíma. Þess vegna leggjum við líka mikla áherslu á að miðla upplýsingum um starfsemi félagsins, það sem er að gerast hjá okkur á hverjum tíma, hvers vegna og hvað það þýðir fyrir reksturinn og þá um leið okkur sem starfsmenn. “

Skipuleg fræðsla hjá TM tekur mið af því hvaða verkefni eru í gangi hjá félaginu á hverjum tíma. „Við greinum líka í starfsmannasamtölum hvort eitthvað skorti upp á, hvaða fræðslu fólk kallar helst eftir og reynum þá að finna leiðir til að mæta þeim þörfum. Það er brýnt því að þó svo starfsfólk kunni allt sem það þarf að kunna til að skila sinni vinnu þá er mikilvægt að fólk haldi áfram að vaxa í starfi og sem einstaklingar; nokkuð sem við viljum passa upp á.“

Meðal námskeiða sem efnt hefur verið til á vegum TM-skólans á undanförnum tveimur árum og falla utan við beina starfsemi félagsins má nefna námskeið í flokkun og endurvinnslu, bloggi, orkustjórnun og hjólaviðgerðum.

Auk þeirrar þekkingarmiðlunar sem fer fram innan TM, á félagið í samstarfi við önnur tryggingafélög um starfrækslu Tryggingaskólans sem Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík hefur umsjón með. Þar er megináhersla lögð á kennslu í skaðabótarétti en nýlega var náminu breytt og samskiptum bætt við námsskrána. Með því er ætlunin að styrkja fólk á því sviði og efla öryggis þess í samskiptum við samstarfsfólk og viðskiptavini.

Hjá TM vinnur fjölbreyttur hópur fólks með mismunandi bakgrunn. Ragnhildur segir mikil verðmæti í því fólgin; ólíkri menntun og reynslu fylgi ólík sjónarhorn og afstaða. „Hér vinnur fólk með menntun sem segja má að sé hefðbundin miðað við starfsemi fyrirtækisins, til dæmis verkfræðingar, hagfræðingar, kerfisfræðingar, lögfræðingar, stærðfræðingar og viðskiptafræðingar. En hér er líka fólk sem numið hefur bókmenntafræði, fiskeldisfræði, heimspeki, hjúkrunarfræði, myndlist, sálfræði og tannsmíði, svo nokkuð sé nefnt. Allt þetta fólk hefur ýmsu að miðla af sinni menntun og það er um leið ánægjulegt að geta sýnt fram á að tiltekin menntun þarf ekki að beina fólki á einhverja ákveðna braut.“

Að sama skapi er starfsfólk TM á öllum aldri. Einn starfsmaður nær 50 ára starfsaldri á árinu! „Almennt er starfsaldurinn frekar hár og starfsmannaveltan minni en víðast hvar. Hér hafa margir verið lengi. Það segir okkur að fólki finnist gott að vinna hjá TM og yfir því erum við auðvitað afskaplega glöð.“