Samfélagið

Mótuð var á árinu 2014 stefna TM um samfélagsábyrgð sem felur í sér þrjár meginstoðir. Þær eru forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðningur við vaxtabrodda samfélagsins. Unnið verður að innleiðingu stefnunnar árið 2015.

Hlutverk TM er að þjóna einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum með aðstoða við að vera rétt tryggð og koma lífi þeirra og starfsemi fljótt á réttan kjöl eftir áföll. Starfsemi tryggingafélags felur í sér sameiginlega ábyrgð á lífi, heilsu og hagsmunum fólks og því ber TM mikla ábyrgð.

Það er markmið TM að draga úr skaðlegum áhrifum af starfsemi sinni og hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins með því að nýta sérþekkingu sína í þágu þess. Það er trú okkar að með því að vinna að því að halda góðu jafnvægi milli efnahagslegra og samfélagslegra þátta og umhverfisins leggjum við okkar af mörkum til þess að auka sjálfbærni í íslensku samfélagi.

Starfsmenn TM og stjórn félagsins telja að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki þeir verulega líkur á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðlega áhrif á ímynd þess og orðspor. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og þannig má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.

Stoðir samfélagsábyrgðar TM

TM hefur skilgreint þrjá málefnaflokka sem starfsmenn félagsins búa yfir sérþekkingu á og félagið telur að nýta megi þá þekkingu til góðs fyrir samfélagið.


1. Forvarnir

Starfsmenn TM hafa mikla þekkingu á því sem getur hent fólk, fyrirtæki og stofnanir og hafa í gegnum tíðina veitt framúrskarandi þjónustu í því að aðstoða viðskiptavini félagsins við að bregðast við áföllum. Við heitum því að vinna markvisst að því að minnka líkur á tjónum, hvort sem um er að ræða tjón á heilsu eða öðrum hagsmunum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. TM sinnir forvörnum á ýmsum sviðum og styrkir forvarnarstarf annarra. Sá þáttur verður efldur enn frekar enda ætlun TM að marka sér stöðu sem það tryggingafélag sem þekkt er fyrir að hafa með starfsemi sinni jákvæð áhrif á öryggi, heilsu og vellíðan fólks.


2. Persónu­vernd og upplýsinga­öryggi

TM hefur verið með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis frá árinu 2006 og hefur unnið markvisst að því að tryggja öryggi upplýsinga og efla öryggisvitund starfsmanna, þjónustuaðila og viðskiptavina TM. Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem okkur er treyst fyrir vegna starfa okkar.


3. Stuðningur við vaxtarbrodda samfélagsins

TM fjárfestir í völdum fyrirtækjum sem teljast til vaxtarbrodda samfélagsins. Með þessu stuðlum við að nýsköpun og fjárfestingu í greinum sem eru að byggja upp sérþekkingu á sínu sviði. Við leitum leiða til þess að koma tímanlega með lausnir fyrir aðila sem eru að hefja nýja starfsemi eða þróa starfsemi sína þannig að hún kallar á nýjar lausnir í vátryggingum. Með því að tryggja vátryggingalega hagsmuni þeirra snemma í þeirra lífshlaupi má auka líkur á að rekstur þeirra blómstri til lengri tíma litið, samfélaginu til hagsbóta. 



Arnheiður Leifsdóttir 
verkefnastjóri markaðs-
og kynningarmála 

Samfélagsverkefni á ólíkum sviðum

TM kemur að ýmsum samfélagsverkefnum og þar stendur kvennaknattspyrnan hvað hæst en sem kunnugt er hefur kvennalandsliðið náð frábærum árangri á umliðnum árum.

„Við ákváðum fyrir um það bil áratug að gera kvennafótboltann að okkar helsta samfélagsverkefni segir Arnheiður Leifsdóttir, verkefnastjóri markaðs- og kynningarmála hjá TM”. 

„Almenningur var þá rétt að byrja að gefa liðinu gaum og eiginlegur stuðningur fyrirtækja við kvenna-boltann var enn lítill. Við sáum svo hvað gerðist; liðið fór í lokakeppni Evrópumótsins 2009 og 2013. Árið 2007 hófum við samstarf við Margréti Láru Viðarsdóttur landsliðskonu sem meðal annars fól í sér skipulagt átak til að stórefla kvennaknattspyrnuna. Margrét Lára heimsótti íþróttafélög um allt land í okkar nafni, hélt fyrirlestra um fótbolta fyrir yngri flokka kvenna og tók þátt í æfingum. Í framhaldinu settum við svo upp TM mótið í Vestmannaeyjum fyrir stelpurnar og seinna sambærilegt mót á Siglufirði. Markmið TM mótanna hefur alltaf verið fyrst og fremst að hvetja ungar fótboltastelpur til dáða og skapa góðar minningar. Mótin geta verið mikil hvatning því þar fá stelpurnar að sanna sig. Við reynum að gera þau ógleymanleg með ýmsum leiðum. Til dæmis taka landsliðsstelpurnar í knattspyrnu þátt í mótunum okkar með dómgæslu og veita stelpunum verðlaun. Einnig vöndum við vel til verka við vali á gjafavöru. Á síðasta ári gáfum við á TM mótinu í  Eyjum sérhönnuð ponsjó. Ponsjóið var hannað af Ernu Bergmann fatahönnuði og stílista en hún gerði afar fallegt mynstur sem var unnið úr mynstri fótboltans. Á síðasta ári ákváðum við svo að bjóða upp á vetrarmót á höfuðborgarsvæðinu og það er óhætt að segja að það hafi fengið frábærar undirtektir. Það er gefandi að koma að grasrótarstarfinu í fótbolta og sjá framtíðaratvinnumenn stíga sín fyrstu skref á keppnisvellinum á mótum TM.“

Lýðheilsa og heilbrigði viðskiptavina er okkur hjá TM mikið kappsmál. TM tók þátt í 17. ráðstefnunni í líf – og heilbrigðisvísindum Háskóla Íslands á Háskólatorgi í byrjun þessa árs. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnunni sem ætlað er að miðla því sem efst er á baugi í líf – og heilbrigðisvísindum hverju sinni og stuðla að auknu þverfaglegu samstarfi. Hvort sem við tölum um heilsu sjómanna eða svefnheilsu og næringarþörf unga barna þá er okkur ekkert óviðkomandi en námskeið á þessum nótum voru haldin á vegum TM á síðasta ári og voru svo sannarlega mjög gefandi og ekki síst fyrir starfsfólk TM. Þar varð til farvegur til þess að miðla gagnlegri þekkingu til viðskiptavina sem standa á tímamótum. Við finnum að þeir sem taka þátt í námskeiðunum okkar eru þakklátir og það veitir okkur ánægju.

Sjávarútvegssýningin er góður vettvangur

TM tengist sjávarútveginum sterkum böndum enda saga félagsins samofin greininni; það voru fyrirtæki í sjávarútvegi sem stóðu að stofnun TM á sínum tíma. „Þátttaka í Íslensku sjávarútvegssýningunni í Fífunni í september var stærsta verkefni ársins á sviði samskipta- og kynningarmála. Hún er góður vettvangur til að hitta gamla og nýja viðskiptavini í sjávarútvegi og þar skapast oft frábær stemning. Við erum stolt af því að eiga í nánu samstarfi við fyrirtæki í þessari rótgrónu og mikilvægu atvinnugrein um leið og við vinnum með nýgræðingum á öðrum sviðum og sjáum þá vaxa og dafna, samfélaginu öllu til hagsbóta.“