Nýir markaðir


Hjálmar Sigurþórsson,
framkvæmdastjóri
fyrirtækjaþjónustu TM

Á nýja markaði í krafti þekkingar og styrks

TM hefur í nokkur ár boðið þjónustu sína innan evrópska efnahagssvæðisins og hafa iðgjöld erlendis frá aukist hægt og örugglega á undanförnum misserum. Forsenda erlendra viðskipta er mat alþjóðlegs matsfyrirtækis á fjárhagslegum styrkleika en TM undirgengst, eitt íslenskra tryggingafélaga, slíkt mat.

Ástæða þess að byrjað var að meta fjárhagslegan styrkleika TM með slíkum hætti voru kaup félagsins á norska tryggingafélaginu Nemi árið 2006. „Nemi naut styrkleikamats Standard & Poor's [S&P] og sem móðurfélag þurfti TM einnig að undirgangast slíkt mat,“ segir Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu TM. „Þegar Nemi var selt í byrjun árs 2009 var ákveðið að TM skyldi áfram gangast undir úttekt S&P enda nyti félagið góðs af því og gæti í krafti þess sótt á nýja markaði.“

Hjálmar segir að TM hafi fyrst fengið einkunnina BBB en hún hafi lækkað í BB+ í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. „Einkunnir fyrirtækja haldast jafnan í hendur við einkunnir ríkissjóða enda liggur almennt efnahagsástand í ríkjum til grundvallar á mati á fjárhagslegum styrkleika þeirra. Þegar S&P lækkaði einkunnina vegna langtímaskuldbindingar ríkisins lækkuðum við sjálfkrafa líka. Í janúar 2013 hækkaði einkunnin í BBB- með stöðugar horfur og sú góða og mikilvæga breyting varð svo í júlí 2014 að horfum var breytt úr stöðugum í jákvæðar. Það gefur tilefni til bjartsýni á að einkunnin kunni að hækka enn frekar.“

Að sögn Hjálmars er reglubundið mat S&P á fjárhagslegum styrkleika TM mikilvægt að ýmsu leyti. „Rekstur og áætlanir félagsins eru grandskoðuð og vel fylgst með stöðu ríkisfjármála og þróun efnahagslífsins. Með því fæst mat á horfum á hverjum tíma frá utanaðkomandi aðila. Matinu fylgir líka aðhald sem með öðru, eins og til dæmis skráningu í Kauphöll, er hvati til að gera betur í rekstri. Að auki gerir matið okkur kleift að sækja viðskipti til annarra landa.“

TM hefur um nokkurt skeið annast tryggingar fyrir erlend fyrirtæki. Talsverður vöxtur varð í þeim hluta starfseminnar á árunum 2007 og 2008 en í kjölfar lækkunar matseinkunnarinnar vegna efnahagshrunsins dró heldur úr. „Snemma árs 2009 fékk TM, fyrst erlendra tryggingafélaga, starfsleyfi í Færeyjum og tryggir nú meðal annars færeyska ríkisútvarpið og stórt sjávarútvegsfyrirtæki þar í landi. Árið 2010 tóku tryggingar erlendis að aukast á ný og árið 2012 komu um sex prósent iðgjalda félagsins að utan. Við hækkun mats S&P í ársbyrjun 2013 jukust erlendu viðskiptin enn frekar og nema þau nú um ellefu prósentum af iðgjöldum.“

Viðskipti TM í útlöndum eru einkum í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og Færeyjum og aðallega á sviði skipa- og farmtrygginga. Hjálmar segir viðskiptin bjóðast í gegnum alþjóðlega tryggingamiðlara en starfsemi þeirra gerir TM mögulegt að starfa á erlendum mörkuðum án þess að starfrækja þjónustuskrifstofur með tilheyrandi kostnaði utan landsteinanna.

„Það ríkir hörð samkeppni á alþjóðlegum tryggingamarkaði enda tugir fyrirtækja um hituna. Í öllum viðskiptum TM erlendis er, líkt og í viðskiptum innanlands, nákvæmt áhættumat lagt til grundvallar. Félagið hefur aðgang að ýmsum upplýsingum til að verðleggja þjónustuna og kvikar hvergi frá ítrustu reglum um öryggi og áhættu. Sannleikurinn er sá að það væri tiltölulega auðvelt að vaxa hratt í útlöndum en með varkárni að leiðarljósi stefnir TM að því að auka hlutdeild sína erlendis hægum skrefum.“