Markaðsstarfið

Markaðsstarf er veigamikill þáttur í starfsemi TM. Ítarlegar rannsóknir og kannanir búa að baki þeirri stefnu sem fylgt er en ný markaðsstefna var samþykkt á síðasta ári og gildir hún til 2018. 


Ragnheiður D. Agnarsdóttir
framkvæmdastjóri einstaklings-
þjónustu og samskiptasviðs

Við viljum auka lífsgæði viðskiptavina

Ragnheiður D. Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingsþjónustu og samskiptasviðs, segir nýju stefnuna hverfast um meginmarkmið félagsins, sem er að upplifun viðskiptavinina sé: „Enginn verndar þig eins og TM“.

„Það er áfram meginmarkmiðið okkar og allt okkar starf, hvort heldur er í markaðsmálum eða þjónustunni almennt, grundvallast á því. Í því felst einfaldlega að við viljum tryggja viðskiptavinum okkar hugarró með því að veita þeim framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf á sviði tryggingamála.

Samhliða mótun á nýrri markaðsstefnu var tekin ákvörðun um að fara nýjar leiðir að því markmiði okkar að viðskiptavinir félagsins upplifi í raun að enginn veiti þeim betri vernd en TM. Samskipti tryggingafélaga og viðskiptavina hafa að langmestu leyti snúist um tjón með einum eða öðrum hætti en því ætlum við að breyta. Við viljum reyna að skilja þarfir fólks á öðrum sviðum, nálgast það í daglegu lífi þess og stuðla að því að viðskiptavinir okkar geti aukið lífsgæði sín.“

Aukið virði viðskiptasambandsins

Ragnheiður segir að lykillinn að því sé markviss miðlun upplýsinga. Þess vegna hafi TM meðal annars byrjað að blogga í febrúar á síðasta ári en í reglulegum bloggfærslum félagsins sem miðlað er á heimasíðu þess og samfélagsmiðlum hefur verið skrifað um heilsutengd málefni og fleira sem ætlað er að einfalda líf fólks og auka farsæld í leik og starfi. „Við trúum að með slíkri miðlun gagnlegra upplýsinga aukist virði viðskiptasambandsins, félaginu og viðskiptavinum til heilla. Hugsunin er sú að samband okkar við viðskiptavinina verði sterkara en áður og fólk heyri ekki bara í okkur þegar óveður er í aðsigi eða komið að greiðslu iðgjalda. Auk bloggsins höfum við í þessu skyni þróað veflausnir sem gagnast fólki við að átta sig á hvaða vátryggingavernd það þarf, fjárhæðir líf- og sjúkdómatrygginga og fleira og svo höfum við efnt til námskeiða, til dæmis fyrir nýbakaða foreldra, og ætlunin er að stíga fleiri skref í þá átt á þessu ári.“

Ráðgjöf og kaup hvar og hvernig sem hentar

Vefurinn er mikilvæg samskiptaleið TM og viðskiptavina og á liðnu ári hófst sala á helstu tryggingum einstaklinga á tm.is. Ragnheiður segir að aðdragandinn hafi verið langur og rekur hann allt aftur til ársins 2006. „Þá hófum við að selja tryggingar í gegnum vefinn undir merkjum Elísabetar. Það var skemmtilegt verkefni sem gekk vel en við ákváðum að nú væri tímabært að færa þá leið yfir á TM. Það var mikilvægt að prófa þetta og þróa í nafni Elísabetar, rekast á veggi og glöggva sig til fulls á virkninni áður en þetta var heimfært á það trausta og dýrmæta vörumerki sem TM er. Það kann að hljóma þversagnarkennt að á sama tíma og við viljum auka samskiptin við viðskiptavinina bjóðum við þeim að sjá um sig sjálfa, ef svo má segja, á vefnum. Við lítum hins vegar svo á að það sé mikilvægt að viðskiptavinirnir hafi þetta val; viðskipti og samskipti á vefnum fara vaxandi og meðal ungs fólks er mikill áhugi á að nýta þessa þjónustuleið. Við erum því að mæta þörf sem þegar er til staðar í nokkrum mæli og um leið að búa okkur undir framtíðina því komandi kynslóðir munu án efa vilja kaupa tryggingar eins og aðra þjónustu eða vöru í gegnum vefinn.“  

Árangursrík auglýsingaherferð – Hvað sem verður

Nýrri auglýsingaherferð var hleypt af stokkunum í febrúar og vakti hún mikla athygli. Grípandi lag og nýstárlegt myndefni fór vel í áhorfendur. „Við vorum mjög ánægð með viðtökurnar. Þetta var í raun fyrsta skrefið í útfærslu á nýju markaðsstefnunni þar sem við einblínum ekki á bótaskylda atburði heldur tölum um lífið almennt og sýnum að við höfum skilning á því. Eins vildum við sýna að við getum haft húmor fyrir því sem getur hent fólk eins og til dæmis setningin „ef ég barna kærustuna“ ber með sér. Við hugsuðum einfaldlega með okkur: Hvernig er lífið og hvað getur mætt okkur á hverjum degi og valdið okkur áhyggjum eða skapað nýjar áskoranir? Bragi Valdimar Skúlason samdi frábært lag og texta fyrir okkur og í framhaldinu var ákveðið að hafa myndrænu útfærsluna létta og skemmtilega. Það er óhætt að segja að árangurinn hafi verið góður því aldrei fyrr höfum við fengið jafngóð fyrstu viðbrögð við auglýsingaefni. Svo var eintaklega gaman að gera þetta sama lag að jólalagi og heimsækja viðskiptavini með Kvennakór Garðabæjar á aðventunni. Afraksturinn sýndum við á vefnum okkar. Þetta hafði góð og einlæg áhrif, bæði meðal þeirra sem við heimsóttum og eins þeirra sem horfðu á.“

Auglýsingaherferðin fékk tilnefningu til Íslensku auglýsingaverðlaunanna – Lúðursins í flokki árangursríkra auglýsingaherferða (ÁRAN).