Fréttir ársins

Bruninn í Skeifunni

Einn mesti eldsvoði í sögu Reykjavíkur varð að kvöldi sunnudagsins 6. júlí þegar eldur kom upp í húsaþyrpingu við Skeifuna 11. Um var að ræða sex sambyggð hús, samtals um 8.200 fermetrar að stærð. Þegar slökkviliðið bar að garði voru sum húsanna alelda. Hættuástand ríkti enda mikið um eldfim efni innandyra. Sprengingar gullu við og óttast var að allar byggingarnar hryndu til grunna. Svört reykjarsúla steig upp af brennandi húsunum og reykjarlykt lagðist yfir höfuðborgarsvæðið.

„Verklag TM er skýrt þegar svona atburðir verða,“ segir Ólafur Haukur Ólafsson, forstöðumaður eigna- og ábyrgðatjóna TM. „Við förum á vettvang og erum til staðar fyrir viðskiptavinina og þjónustum þá eftir aðstæðum og þörfum. Í þessu tilviki fórum við tveir en þrír viðskiptavinir félagsins voru með starfsemi í húsunum. Það voru Fönn, Stilling og Sólargluggatjöld sem eru rótgróin fyrirtæki með fjölda viðskiptavina. Blessunarlega urðu ekki slys á fólki en við blasti að tjónið var gríðarlegt og slökkviliðið lagði áherslu á að hindra að eldurinn breiddist enn frekar út. Það eina sem við gátum gert þarna um kvöldið var að stappa stálinu í okkar viðskiptavini.“

Morguninn eftir hófu Ólafur Haukur og aðrir sérfræðingar TM að meta stöðuna í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir. Mest aðkallandi var að fara yfir málefni Fannar en eldurinn hafði kviknað í húsakynnum fyrirtækisins og mikil eyðilegging orðið. Húsið var farið, tæki og tól ónýt og mikilvægir samningar í uppnámi. „Umfangsmikill hluti starfsemi Fannar byggir á föstum samningum við stofnanir og fyrirtæki. Þeir samningar voru í húfi en að óbreyttu blasti við langvarandi rekstrarstöðvun sem á endanum kynni að leiða til þrots. Úr varð að við ráðlögðum Ara Guðmundssyni, eiganda Fannar, að leita allra leiða til að efna fasta samninga og hefja um leið enduruppbyggingu fyrirtækisins á nýjum stað. Þar réði ekki síst óvissa um hvort borgaryfirvöldum hugnaðist áframhaldandi iðnaðarstarfsemi í Skeifunni. Eftir svolitla umhugsun ákvað Ari að fara að ráðleggingum okkar.“

Allir reiðubúnir að aðstoða

Skrifstofur Fannar sluppu við tjón en útvega þurfti rafstöð til að knýja tölvukerfi og önnur skrifstofutæki. „Þaðan var því hægt að stýra mikilvægum aðgerðum næstu daga sem fólust í að finna starfseminni framtíðarhúsnæði með nýjum tækjabúnaði og leita eftir samstarfi við önnur þvottahús og efnalaugar. Við aðstoðuðum Ara og hans fólk við þetta eins og við gátum.“

Það má heita merkilegt á hörðum samkeppnismarkaði að allir vildu hjálpa og fyrr en varði hafði Fönn hafið starfsemi á ný. „Strax á öðrum degi eftir brunann voru um 40 starfsmenn Fannar byrjaðir að vinna í þvottahúsum og efnalaugum hér og þar um borgina við að þvo fyrir viðskiptavini fyrirtækisins en þannig var hægt að standa við samninga. Hefðu samkeppnisaðilarnir ekki tekið erindi Fannar jafn ljúflega og raun bar vitni hefðu föst viðskipti tapast og það hefði geta haft slæm áhrif á reksturinn.“

TM fékk brunavettvanginn afhentan u.þ.b. tíu dögum eftir brunann og tók hreinsunarstarf í kringum mánuð. Brunarústir voru fjarlægðar og það húsnæði sem stóð var þrifið og lagað. Svæðið var girt af og vaktað allan sólarhringinn. Eins og áður sagði var tjónið gríðarlegt. Þrjú af sex bakhúsum eyðilögðust algjörlega. Vegna lyktar var allur lager Stillingar úrskurðaður ónýtur en það sem var heillegast var selt á brunaútsölu. Hjá Sólargluggatjöldum var hægt að þrífa og laga vélar en henda þurfti öllum vörum í opnum pakkningum þar sem ólykt hafði sest í gardínurnar. En mest varð tjónið hjá Fönn þar sem svo að segja allar vélar eyðilögðust. Hjartað í verksmiðjunni; risavaxinn gufuketill sem knúði hana áfram, skemmdist þó ekki enda í sprengjuheldri stálbyggingu aftan við húsin.

„Það vildi til happs að Ari var forsjáll í sinni vátryggingavernd og fyrir örfáum árum fékk hann okkur til að lista upp allt innbú fyrirtækisins. Það lá því ljóst fyrir og auðveldaði það mjög alla eftirvinnslu og gerði að verkum að ekki reis ágreiningur um uppgjör. Þau vinnubrögð eru til fyrirmyndar og við hvetjum alla viðskiptavini okkar til að gera slíkt hið sama. Mest allur þvottur sem var tilbúinn og lá innpakkaður í afgreiðslu bjargaðist og var afhentur eigendum eftir endurhreisun. Annað eyðilagðist og áttu um 300 aðilar, einstaklingar og fyrirtæki, í hlut. Það tjón hefur að mestu verið gert upp.“  

Fönn var fundið nýtt verksmiðjuhúsnæði á Kletthálsi og fór starfsemin þar í gang u.þ.b. fimm mánuðum eftir brunann í Skeifunni. Að sögn Ólafs gengu allar aðgerðir og framkvæmdir vel en í fyrstu var reiknað með að enduruppbyggingin gæti tekið upp undir eitt ár. „Til að takmarka tjónið enn frekar festi Fönn kaup á lítilli efnalaug í næsta nágrenni við Klettháls og hóf þar starfsemi í október.“

Úrvinnsla og uppgjör mála er varða starfsemi viðskiptavina TM í húsunum við Skeifuna 11 hafa gengið eins vel og ætla má að geti verið við svona atburði. Að mörgu þarf að hyggja, margvísleg álitamál rísa og mikið er undir. Hafa þarf hraðar hendur um leið og vandað er til verka. „Í störfum okkar byggðum við á áralangri reynslu og þekkingu sem eru meðal mikilvægustu „eigna“ TM,“ segir Ólafur Haukur. Uppgjöri vegna fasteignanna sjálfra er ólokið. Þar er við snúin mál að eiga enda áttu alls níu aðilar, vátryggðir hjá þremur tryggingafélögum, hlut í húsunum. Vonir standa til að vinnu við tjónsmat geti lokið sem fyrst og að úr greiðist fljótlega í framhaldinu.


Fréttaannáll

9. janúar 2014

Fimleikafólk verðlaunað

Uppskeruhátíð Fimleikasambands Íslands var haldin þriðjudaginn 7. janúar í höfuðstöðvum TM, aðalstyrktaraðila Afrekssjóðs Fimleikasambandsins. Dominiqua Alma Belanyi hlaut Afreksbikar sambandsins fyrir frábæran árangur 2013 með Gróttu og landsliðinu.

21. janúar 2014

Vefur TM tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna

tm.is var tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna 2013 í tveimur flokkum; sem besti fyrirtækjavefurinn (stærri fyrirtæki) og sem aðgengilegasti vefurinn.

23. janúar 2014

Hafdís íþróttamaður Akureyrar 2013

Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir, UFA, var kjörin íþróttamaður Akureyrar 2013. Hún stóð sig einstaklega vel á árinu í spretthlaupum og langstökki, setti þrjú glæsileg Íslandsmet og vann fjölda Íslandsmeistaratitla.

Tryggingamiðstöðin, sem stutt hefur vel og dyggilega við íþróttastarf á Akureyri á undanförnum árum, gaf glæsilega eignabikara sem þrír efstu íþróttamennirnir í kjörinu fengu afhenta. 

29. janúar 2014 

Standard & Poor's breytir horfum á fjárhagslegum styrkleika TM í stöðugar

Standard & Poor's (S&P's) hefur breytt horfum í mati á fjárhagslegum styrkleika TM úr neikvæðum í stöðugar. Það er gert í kjölfar þess að horfum á mati á ríkissjóði Íslands var breytt með sama hætti. Fjárhagsleg styrkleikaeinkunn TM, BBB-, er jafnframt staðfest en það er sama einkunn og S&P's hefur veitt langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins.

12. febrúar 2014

Vefur TM tilnefndur sem vefur ársins

Vefur TM hefur verið tilnefndur til Nexpo-verðlaunanna 2013 sem vefur ársins. Nexpo er árleg verðlaunahátíð með það að markmiði að hampa því sem vel er gert í vef- og markaðsgeiranum. 

14. febrúar 2014

Ný sjónvarpsauglýsing frumsýnd

Ný sjónvarpsauglýsing frá TM birtist í fyrsta sinn á skjám landsmanna. Í henni kvað við nýjan tón; hún var teiknuð og innihélt frumsamið lag og texta þar sem fjallað var frísklega um alls konar óhöpp sem hent geta fólk. 

15. febrúar 2014

Pæjumót TM í Kórnum 

Yfir 900 knattspyrnupæjur úr 5., 6. og 7. flokki tóku þátt í Pæjumóti TM í Kórnum í Kópavogi en TM og HK/Víkingur stóðu saman að mótinu.  

26. febrúar 2014

Hagnaður TM 2013 2,1 milljarður 

Ársreikningur TM fyrir árið 2013 var samþykktur á stjórnarfundi. Hagnaðurinn nam 2,1 milljarði króna. Sigurður Viðarsson forstjóri sagði reksturinn hafa verið í ágætu jafnvægi og að í kjölfar hækkunar á mati S&P á fjárhagslegum styrkleika hefðu alþjóðlegir vátryggingamarkaðir opnast félaginu að nýju.

28. febrúar 2013

Ánægðir viðskiptavinir TM

TM kom, fimmtánda árið í röð, vel út í Ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina íslenskra fyrirtækja. Frá upphafi hefur TM þrettán sinnum orðið efst meðal tryggingafélaga og í tvígang í öðru sæti.

6. mars 2014

Samstarf um varnir gegn vatnstjóni

TM var í hópi ellefu fyrirtækja, stofnana og samtaka sem mynduðu samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni en gríðarlegt eignatjón, mikil óþægindi og jafnvel heilsutjón verður vegna vatnsleka, raka og myglu á heimilum ár hvert. Hópurinn gengur undir nafninu Vatnsvarnarbandalagið.

8. mars 2014

Stjörnumót TM í handbolta

Rúmlega 500 krakkar tóku þátt í árlegu handboltamóti TM og Stjörnunnar fyrir 8. flokk (yngstu iðkendurnir) stelpna og stráka. 

20. mars 2014

Aðalfundur 2014

Stjórn TM var endurkjörin á aðalfundi og samþykkt að greiða út 1,5 milljarða króna arð til hluthafa. 

22. apríl 2014

TM styður Þór/KA

TM og knattspyrnulið Þórs/KA í kvennafótbolta framlengja samstarfssamning um eitt ár. Liðið varð Íslandsmeistari 2012 og lék til úrslita í bikarkeppninni 2013. 

27. apríl 2014

Stjörnumót TM í fótbolta

2000 strákar og stelpur í 5., 6. og 7. flokki tóku þátt í fyrsta Stjörnumóti TM í fótbolta. Mótinu var framhaldið 3. og 4. maí.

5. maí 2014

Námskeið um svefn og næringu barna

TM bauð foreldrum barna á fyrsta ári á námskeið hjá Örnu Skúladóttur og Rakel B. Jónsdóttur um svefn og næringu. Börnin komu auðvitað með og það var líf og fjör í húsinu. 

14. maí 2014

Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi 2014

700 milljóna króna hagnaður varð á starfsemi TM á fyrsta fjórðungi ársins. Sigurður Viðarsson forstjóri sagði niðurstöðuna verða að teljast góða í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna. 

15. maí 2014

Hægt að tryggja sig í gegnum netið

TM hefur sölu á algengustu eigna-, fjölskyldu- og ökutækjatryggingum í gegnum netið. Nú er alltaf opið fyrir nýja viðskiptavini hjá TM og hægt er að koma í viðskipti hvar og hvenær sem er. 

1. júní 2014

Sjómannadagurinn

Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu TM, flytur ávarp á hátíðarsamkomu Sjómannadagsráðs á Grandagarði. 

3. júní 2014 

TM selur hlutabréf í HB Granda

TM seldi hlutabréf fyrir tvo milljarða króna í HB Granda. Fyrir söluna var TM sjötti stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. 

12. júní 2014 

Pæjumót TM í Vestmannaeyjum

Um 900 stelpur tóku þátt í árlegu Pæjumóti TM. Það var líf og fjör í Eyjum meðan á mótinu stóð en alls komu um 2.000 manns; keppendur, þjálfarar, fararstjórar og foreldrar, að mótshaldinu. 

20. júní 2014

Mat á fjárhagslegum styrkleika TM staðfest   

Standard & Poor's (S&P) hefur staðfest mat sitt á fjárhagslegum styrkleika TM. Fjárhagsleg styrkleikaeinkunn félagsins er BBB- en það er sama einkunn og S&P hefur veitt langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins.

21. júní 2014

Gengið á sólstöðum

TM og Fjallavinir efna til sólstöðugöngu og miðnæturdekurs hjá Laugarvatni Fontana.

24. júní 2014

Lið TM tekur þátt í WOW Cyclothon og styður HjólaKraft

Hópur starfsmanna TM tók þátt í hjólreiða- og áheitakeppni WOW Cyclothon en í henni var hringvegurinn hjólaður á u.þ.b. sólarhring. Um leið studdi TM við bakið á HjólaKrafti sem einnig tók þátt en HjólaKraftur er verkefni sem Þorvaldur Daníelsson, framkvæmdastjóri Krafts, fór af stað með árið 2012 og snýst í stuttu máli um að búa til létt og skemmtilegt prógramm fyrir krakka og unglinga sem glíma við yfirvigt. Beindi TM öllum áheitum sínum til HjólaKrafts. Er skemmst frá því að segja að HjólaKraftur safnaði mestu allra lið, rúmri milljón króna, en alls söfnuðust rúmar fimmtán milljónir sem færðar voru Landspítalanum til tækjakaupa.

7. júlí 2014

Bruni í Skeifunni

Vegna bruna í Skeifunni í gærkvöldi vill Tryggingamiðstöðin hf. taka eftirfarandi fram: Ljóst er að nokkrir viðskiptavinir félagsins hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni í brunanum og unnið er að því hörðum höndum í samstarfi við þá að lágmarka það tjón sem þeir kunna að verða fyrir. Það skal áréttað að við tjón, eins og hér um ræðir, nýtur félagið endurtryggingarverndar sem hefur í för með sér að eigin kostnaður þess vegna tjónsins verður 150 millj. króna. Viðbótarkostnaður vegna endurtryggingarsamninga er á þessu stigi áætlaður 60 til 90 millj. króna. Áætlaður heildarkostnaður félagsins vegna tjónsins er því á bilinu 210–240 milljónir kr.

24. júlí 2014

Standard & Poor's breytir horfum TM í jákvæðar

Standard & Poor's (S&P) hefur í dag breytt horfum sínum fyrir Tryggingamiðstöðina (TM) úr stöðugum í jákvæðar. Fjárhagsleg styrkleikaeinkunn félagsins, BBB-, er jafnframt staðfest en það er sama einkunn og S&P hefur veitt langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins. Breyting á horfum fyrir TM er gerð í kjölfar þess að S&P breytti horfum sínum fyrir íslenska ríkið í jákvæðar þann 18. júlí síðastliðinn.

28. ágúst 2014

Afkoma TM á öðrum ársfjórðungi 2014

Heildarhagnaður ársfjórðungsins var 314 milljónir króna og heildarhagnaður á fyrri hluta ársins 1.015 milljónir. Um afkomu annars ársfjórðungs sagði Sigurður Viðarsson forstjóri m.a. að gott jafnvægi hefði verið á milli framlegðar af vátryggingarekstri og fjárfestingatekna, en aukning í ökutækjatjónum hefði í för með sér minni framlegð af vátryggingastarfsemi en á fyrra ári. Afkoma af fjárfestingum hefði verið góð þrátt fyrir erfið skilyrði á innlendum fjármálamörkuðum.

25. september 2014

TM á Íslensku sjávarútvegssýningunni

TM tók þátt í Íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Fífunni. Áhersla TM á sýningunni var á sögu félagsins og hvernig hún er samofin sögu og þróun sjávarútvegsins í landinu. Bás TM var í raun safn þar sem hægt var að sjá úrklippur úr heimildamyndunum Heill – Heilsa sjómanna, Listin að lifa, Strandið, o.fl. Einnig voru sýndar fréttagreinar, ljósmyndir og markaðsefni frá fyrri árum á snertiskjám.

10. október 2014

TM höllin í Garðabæ

Keppnishöll handknattleiksdeildar Stjörnunnar hlaut nafnið TM–höllin við undirskrift samnings þar um. TM hefur verið aðalstyrktaraðili handknattleiksdeildar Stjörnunnar síðastliðin ár og með samningnum var enn styrkari stoðum rennt undir fjármögnun grunnþátta í starfi meistara- og yngri flokka Stjörnunnar.

29. október 2014

Afkoma TM á þriðja ársfjórðungi 2014

Heildarhagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 527 milljónum króna. Sigurður Viðarsson forstjóri lýsti sig mjög sáttan við niðurstöðuna; samsett hlutfall hefði verið 95% þrátt fyrir að mikill kostnaður félli til vegna stórbrunans í Skeifunni 11. Heildarhagnaður TM fyrstu níu mánuði ársins var 1.541 milljón króna.

7. nóvember 2014

TM einn af máttarstólpum Borgarleikhússins

TM og Borgarleikhúsið gera samstarfssamning um að TM verði einn af máttarstólpum leikhússins. TM var líka sérstakur samstarfsaðili að gamanleikritinu Beint í æð sem var frumsýnt 31. október.

10. nóvember 2014

Námskeið um svefn og næringu barna

TM bauð á ný foreldrum barna á fyrsta ári á námskeið hjá Örnu Skúladóttur og Rakel B. Jónsdóttur um svefn og næringu.

20. nóvember 2014

TM veitir verðlaun til frumkvöðla í sjávarútvegi

TM var stoltur bakhjarl Sjávarútvegsráðstefnunnar 2014 sem haldin var 19.–21. nóvember. Tilgangur hennar er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg ásamt því að vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Líkt og undanfarin ár veitti TM verðlaun fyrir Framúrstefnuhugmynd ráðtefnunnar og komu þau að þessu sinni í hlut Unnsteins Guðmundssonar fyrir hugmynd að sporðskurðarvél. Viðurkenningar hlutu Guðni Þór Þrándarson og Marie Legatelois fyrir hugmynd að brennslu á þangi til saltgerðar og Hallgrímur Björgúlfsson fyrir hugmynd að fóðrun þorskeiða.

11. desember 2014

Gleðileg jól

TM heimsótti nokkra viðskiptavini og óskaði þeim gleðilegra jóla með frumsömdum jólasöng eftir Braga Valdimar Skúlason í flutningi Kvennakórs Garðabæjar.

19. desember 2014

TM hlýtur jafnlaunavottun

TM hlýtur jafnlaunavottun VR en hún staðfestir að karlar og konur innan fyrirtækisins fá sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Hjá TM starfa 130 starfsmenn. 23 fyrirtæki og stofnanir bera jafnlaunavottun VR en hún er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands og er jafnframt tæki fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta stöðu kynjanna innan eigin veggja með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum.