Rekstrarniðurstöður 2014
- Heildarhagnaður ársins var 2.074 m.kr. og hagnaður á hlut var 2,75 kr. (2013*: 2.337 m.kr. og 3,07 kr.)
- Hagnaður fyrir skatta var 2.417 m.kr. (2013*: 2.593 m.kr.)
- Framlegð af vátryggingarstarfsemi var 117 m.kr. (2013*: 871 m.kr.)
- Hagnaður af vátryggingarstarfsemi var 291 m.kr. (2013*: 1.593 m.kr)
- Fjárfestingatekjur voru 2.615 m.kr. (2013: 2.094 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingaeigna var 10,1% (2013: 8,5%)
- Samsett hlutfall var 99,0% (2013*: 92,4%)
- Bókfærð iðgjöld drógust saman um 1,8% á milli ára
- Eigin iðgjöld drógust saman um 2,0% á milli ára
- Eigin tjón hækkuðu um 6,9% á milli ára*
- Rekstrarkostnaður lækkaði um 2,5% á milli ára
- Eiginfjárhlutfall í lok árs var 44,9%
- Eigið fé í lok árs var 13.960 m.kr.
- Handbært fé frá rekstri var 2.283 m.kr. (2013: 3.357 m.kr.)
* Í árslok breytti félagið um reikningsskilaaðferð við mat á tjónaskuld. Samanburðartölum vegna ársins 2013 hefur verið breytt til samræmis við nýja aðferð
Vátryggingarekstur
Afkoma ársins var í járnum með samsett hlutfall upp á 99% sem er fimmta árið í röð þar sem samsett hlutfall er undir 100%. Iðgjöld drógust saman í heild á milli ára en hins vegar var 29% aukning í erlendum viðskiptum. Afkoma eignatrygginga var slök en stórbruni í Skeifunni og nokkur minni áföll lituðu afkomuna sem er sú versta síðan 2008. Tjónakostnaður var svipaður því sem áætlað hafið verið en tjónshlutföll hækkuðu almennt nema í sjó-, slysa-, og líftryggingum. Afkoma ökutækjatrygginga versnaði mjög á árinu og ljóst er að aukinn umferðarþungi skilar sér í fjölgun tjóna. Rekstrarkostnaður lækkaði um 2,5% á milli ára en gripið var til aðhaldsaðgerða á miðju ári sem skiluðu sér af fullum þunga á fjórða ársfjórðungi.
Samsett hlutfall samstæðu
Iðgjöld
Eigin iðgjöld ársins 2014 námu 11.305 m.kr. sem er 2% lækkun miðað við 2013 og 1,4% lægri en áætlað var. Brotthvarf stórra viðskiptavina í upphafi árs skiptir hér mestu máli en aukning í erlendum viðskiptum vegur upp á móti. Endurtryggingakostnaður lækkar á milli ára þrátt fyrir endurkaup á vernd vegna brunans í Skeifunni. Ljóst er að félagið hefur náð góðum árangri í lækkun þessa kostnaðar. Endurtryggingahlutfall hefur farið lækkandi og var 5,4% á síðasta ári, samanborið við 5,9% á árinu 2013.
Eigin iðgjöld (m.kr.)
Fjárfestingartekjur
Fjárfestingartekjur TM námu 2.615 m.kr. árið 2014 sem jafngildir um 10,1% ávöxtun fjárfestingaeigna. Að teknu tilliti til verðbólgu var raunávöxtun ársins rúmlega 9%. Fjárfestingatekjur TM hækkuðu um 25% á milli ára og voru þær talsvert yfir áætlun ársins.
Afkoma hlutabréfa, jafnt innlendra sem erlendra, vóg þungt í heildarafkomu en ávöxtun innlendra skráðra hlutabréfa TM var yfir 30% sem er umtalsvert hærra en viðmiðunarvísitölur. Afkoma af skuldabréfum var sömuleiðis góð, sér í lagi af ríkisskuldabréfum, en ríkisskuldabréfasafn TM naut góðs af lækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum á árinu, þar sem félagið var hlutfallslega þungt í óverðtryggðum ríkisbréfum. Þá voru stýrivextir lækkaðir um 75 punkta á síðari hluta ársins sem ýtti almennt undir ávöxtun skuldabréfa með fasta vexti. Undanfarin misseri hefur TM fjárfest í ýmsum fasteignatengdum sjóðum og verkefnum og var afkoma þeirra eigna einnig mjög góð á árinu.
Tjón
Eigin tjón hækkuðu um 7% á milli ára en árið 2013 var einstaklega hagstætt í þessu tilliti. Eigið tjónshlutfall hækkaði úr 70,2 % í 76,6%. Hluti endurtryggjenda í tjónakostnaði nam 788 m.kr. árið 2014 en 450 m.kr. árið 2013 og munar þar mestu um brunann í Skeifunni.
Eigin tjón (m.kr.)
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður félagsins nam 2.873 m.kr. árið 2014 og lækkaði um 2,5% frá árinu 2013 en rekstrarkostnaðurinn var hins vegar nokkuð hærri en áætlað hafði verið og stafar það frávik af meiri viðskiptum erlendis sem hækka umboðslaunakostnað.
Rekstarkostnaður samanstendur af launakostnaði, markaðskostnaði, tölvukostnaði, skrifstofu- og stjórnunarkostnaði, kostnaði við rekstur húsnæðis, afskriftum rekstrarfjármuna og öðrum kostnaði.
Launa og launatengd gjöld voru á árinu 2014 1.518 m.kr. og var meðalfjöldi starfsmanna á árinu umreiknað í heilsárstörf 129.
Laun, mótframlag í lífeyrissjóð og hlunnindi forstjóra, stjórnar og stjórnenda greinast þannig:
Nafn | Laun og hlunnindi | Mótframlag í lífeyrissjóð |
---|---|---|
Sigurður Viðarsson, forstjóri | 43.735 | 3.964 |
Örvar Kærnested, formaður stjórnar | 5.950 | 475 |
Andri Þór Guðmundsson, stjórnarmaður | 4.500 | 360 |
Bjarki Már Baxter, stjórnarmaður | 4.650 | 372 |
Bryndís Hrafnkelsdóttir, stjórnarmaður | 2.100 | 168 |
Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarmaður | 4.500 | 360 |
Elín Jónsdóttir, fyrrverandi formaður stjórnar | 5.300 | 481 |
Eiríkur Elías Þorláksson, fyrrverandi stjórnarmaður | 150 | 12 |
Daði Bjarnason, varamaður | 350 | 28 |
Helga Kristín Auðunsdóttir, varamaður | 350 | 28 |
Helgi Ingólfur Eysteinsson, varamaður | 350 | 28 |
Þórunn Pálsdóttir, varamaður | 650 | 52 |
Anna Skúladóttir, fyrrverandi varamaður | 600 | 48 |
Garðar Þorsteinn Guðgeirsson, framkvæmdastjóri | 31.344 | 2.812 |
Hjálmar A. Sigurþórsson, framkvæmdastjóri | 27.904 | 4.347 |
Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri | 27.082 | 2.355 |
Óskar Baldvin Hauksson, framkvæmdastjóri | 28.897 | 2.540 |
Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri | 26.647 | 2.479 |
Í árslok 2012 á forstjóri félagsins samtals 3.402 þús. hluti í félaginu í gegnum félag í hans eigu. Jafnframt eiga fimm stjórnendur hlut í félaginu, samtals að fjárhæð 2.994 þús.
Ógreiddir kaupaukar þann 31.12.2014 eru:
- Sigurður Viðarsson, 6.264.000
- Garðar Þ. Guðgeirsson, 10.739.292
- Hjálmar Sigurþórsson, 4.623.840
- Óskar B. Hauksson, 4.988.880
Fjármagnsgjöld
Fjármagnsgjöld námu 58 m.kr. árið 2014 og lækka á milli ára vegna lægri verðbólgu. Einu vaxtaberandi skuldir samstæðunnar eru lán sem hvíla á íbúðum í eigu hennar.
Heildargjöld félagsins námu 11.585 m.kr. árið 2014 sem er 4% hækkun frá árinu 2013.
Tekjuskattur
Tekjuskattur nam 342 m.kr. árið 2014 og er virkt skatthlutfall 14,2% samanborið við 9,9% árið á undan.
Hagnaður
Hagnaður félagsins eftir skatta nam 2.074 m.kr. árið 2014 en 2.337 m.kr. árið 2013. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 2.417 m.kr. árið 2014 en var 2.593 m.kr. árið 2013.
Hagnaður fyrir tekjuskatt (m.kr.)
Tekjuskattur
Tekjuskattur nam 342 m.kr. árið 2014 og er virkt skatthlutfall 14,2% samanborið við 9,9% árið á undan.
Hagnaður félagsins eftir skatta nam 2.074 m.kr. árið 2014 en 2.337 m.kr. árið 2013.
Afkoma greinaflokka
Eignatryggingar skiluðu óvenjuslakri afkomu eða 102% samsettu hlutfalli vegna óvenjumikilla bruna- og veðurtjóna ársins.
Sjó-, flug- og farmtryggingar skiluðu góðri afkomu á árinu eða 89% samsettu hlutfalli samanborið við 104% samsettu hlutfalli á árinu 2013.
Afkoma ökutækjatrygginga hélt áfram að versna á milli ára en þær vega um 43% af iðgjöldum félagsins og því stærsta greinin. Samsett hlutfall ársins 2014 var 111%.
Ábyrgðartryggingar voru í járnum á árinu og skiluðu 99% samsettu hlutfalli sem er mun verri afkoma en á árinu á undan. Greinaflokkurinn vegur hins vegar ekki mikið í iðgjaldatekjum eða um 5%.
Afkoma af slysatryggingum var góð og skilaði 82% samsettu hlutfalli.
Líftryggingarekstur samstæðunnar er í sérstöku félagi, Líftryggingamiðstöðinni hf. Afkoman undanfarin ár hefur verið mjög góð en samsett hlutfall ársins var 43% sem er veruleg lækkun frá árinu áður.
Í heild eykst samsett hlutfall um tæp 7 prósentustig á milli ára en helst samt fimmta árið í röð undir 100%.
Samsett hlutfall greinaflokka
Efnahagur
Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjárhlutfalli. Aðlagað gjaldþol er eigið fé að frádregnum; tillögu um arðgreiðslu, óefnislegum eignum og eignarhlut minnihluta. Aðlagað gjaldþol TM nam 9.741 m.kr. í árslok 2014 en lágmarksfjárhæð aðlagaðs gjaldþols nam 2.666 m.kr. á sama tíma. Aðlagað gjaldþol var því 3,7 sinnum lágmarkið eða sem svarar 147% af gjaldþolskröfu samkvæmt Solvency II sem var 6.612 m.kr.
Eignir
Í efnahagsreikningi TM er fjárfestingaeignum skipt í fjárfestingafasteignir, bundin innlán, útlán, verðbréf, og handbært fé. Í árslok 2014 nam fjárfestingasafn TM 26.521 m.kr. og jókst það um 222 m.kr. á árinu. Fjárfestingasafnið vegur 85% af heildareignum félagsins sem námu 31.078 m.kr.
Fjárfestingafasteignir er nýr eignaflokkur en um er að ræða íbúðir í eigu félagsins sem flestar eru í útleigu en voru áður flokkaðar sem eignir til sölu.
Eign TM í verðbréfum nam 21.725 m.kr. í árslok 2014 en til samanburðar nam verðbréfaeign félagsins 18.517 m.kr. í árslok 2013. Helsta breytingin á verðbréfasafninu árið 2014 var í hlutabréfaeign sem hækkaði um 1.657 m.kr. á milli ára.
Handbært fé og bundin innlán námu 1.288 m.kr. í árslok 2014 sem jafngildir 5% af fjárfestingasafninu.
Útlán félagsins námu 2.497 m.kr. í árslok 2014. Á undanförnum þremur árum hafa afborganir útistandandi lána numið hærri fjárhæðum en ný útlán og því hefur lánasafn félagsins dregist saman milli ára.
Rekstrarfjármunir félagsins námu 432 m.kr. í árslok 2014 og skiptast í skrifstofuáhöld, tölvubúnað, bifreiðar og að litlu leyti fasteignir. Húsnæði sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24.
Óefnislegar eignir námu 218 m.kr. í árslok 2014 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í Líftryggingamiðstöðinni hf. og hins vegar eignfærður hugbúnaður að fjárhæð 118 m.kr.
Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 481 m.kr. í árslok 2014. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru færðar með viðskiptakröfum.
Viðskiptakröfur námu 3.306 m.kr. í árslok 2014. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 28% og hækkar nokkuð á milli ára.
Eignir (m.kr.)
Fjárfestingaeignir
Fjárfestingaeignir TM námu 26.521 m.kr. í lok árs 2014, og skiptast þær niður í eftirfarandi eignaflokka skv. fjárfestingastefnu TM:
TM leggur áherslu á seljanleika í eignasafni sínu og stýrir líftíma eigna í takti við líftíma skuldbindinga sinna. Handbært fé, lausafjársjóðir og ríkisskuldabréf nema um 71% af eigin tjónaskuld félagsins sem gerir efnahagsreikning félagsins mjög sveigjanlegan og er félagið því afar vel í stakk búið til að mæta tjónaskuldbindingum sínum.
Á árinu voru gerðar umfangsmiklar breytingar á fjárfestingastefnu félagsins sem miðuðu að því að bæta eigna- og áhættustýringu TM, m.a. með auknu gagnsæi, auðveldara mati á árangri og með því að skilgreina frekar hagsmuni vátryggingataka félagsins. Stærstu einstöku breytingarnar sneru að uppskiptingu eignasafnsins í eignir á móti tjónaskuld annars vegar og eignir á móti eigin fé hinsvegar, auk breytinga á eignaflokkaskiptingu safnsins.
Uppskipting á eignasafni TM í eignir á móti tjónaskuld og eignir á móti eigin fé gerir það að verkum að áhættusnið eignasafnsins er breytilegt og þróast í takt við fjárhagslegan styrk félagsins og eigið fé hverju sinni. Eignir á móti tjónaskuld samanstanda af handbæru fé, ríkiskuldabréfum, sveitarfélagaskuldabréfum og traustum eignatryggðum skuldabréfum, s.s. sértryggðum skuldabréfum. Eignir á móti eigin fé eru áhættumeiri eignir, s.s hlutabréf og sérhæfðar fjárfestingar. Þessi skipting gerir það að verkum að félagið þarf að draga úr markaðsáhættu í eignasafni sínu ef gjaldþol fer lækkandi, s.s. vegna arðgreiðslu eða endurkaupa á eigin bréfum.
Eignir á móti tjónaskuld
Eignir á móti eigin fé
Breytingar á eignaflokkaskiptingu miðuðu að því að laga fjárfestingastefnu félagsins að fjölþættara landslagi á fjármagnsmörkuðum og auka dreifingu í eignasafninu. Eignatryggð skuldabréf eru nú orðin þýðingarmikill eignaflokkur í eignasafni TM á sama tíma og dregið hefur verið úr áherslu á handbært fé, ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf. Þá var felldur út eignaflokkurinn „Vaxtafrystar eignir“ sem endurspeglar þá staðreynd að úrvinnslueignir frá efnhagshruninu árið 2008 hafa nú ekki lengur íþyngjandi áhrif á ávöxtun eignasafnins.
Með nýfjárfestingum, arðgreiðslum og endurkaupum á eigin fé á árinu hefur handbært fé félagsins dregist talsvert saman á milli ára og eignasafnið því nú nær markmiðum fjárfestingastefnu en áður. Lækkandi hlutfall handbærs fjár eykur ávöxtun en á sama tíma er dregið úr mótaðilaáhættu á innlent bankakerfi.
Skipting eignaflokka (%)
Eignaflokkur 31.12.2014
Eigið fé og skuldir
Í heild nam vátryggingaskuld TM 14.847 m.kr. í árslok 2014. Í kjölfar þess að ákveðið var að meta tjónaskuld félagsins í samræmi við matsreglur Solvency II tilskipunar Evrópusambandsins breytti félagið um reikningsskilaaðferð. Við þessa breytingu færast 323 m.kr. yfir í rekstur til lækkunar á tjónum ársins 2013 og 1.567 m.kr. úr tjónaskuld þann 1.1.2013 yfir á eigið fé eða samtals 1.890 m.kr.
Skuldir vegna fjárfestingafasteigna námu 862 m.kr. í árslok 2014. Lánin eru öll frá Íbúðalánasjóði og eru þetta einu vaxtaberandi skuldir samstæðunnar.
Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir námu 1.409 m.kr. í árslok 2014 en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir og áfallin gjöld, skuldir vegna endurtryggingastarfsemi og ógreiddan tekjuskatt. Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir lækkuðu óverulega á árinu 2014.
Eigið fé nam 13.960 m.kr. í árslok 2014.
Eigið fé og skuldir 31.12.2014