Ávarp stjórnarformanns

Ný fjármagnsskipan, endurkaupaáætlun og arðgreiðslustefna voru meðal helstu verkefna stjórnar TM á árinu 2014. Eiginfjárþörf félagsins liggur ljós fyrir og er vísir stjórnenda í daglegum störfum. Lagt er til að fjórir milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa sem er hæsta arðgreiðsla félagsins til þessa. Rætt er við Örvar Kærnested formann stjórnar.


Örvar Kærnested
 stjórnarformaður TM

„Eitt aðalverkefni stjórnarinnar á árinu var að taka ákvarðanir um framtíðarfjármagnsskipan félagsins. Þar spila margir þættir saman, bæði utanaðkomandi kröfur og mat stjórnar. Fyrsta skrefið var að meta tjónaskuldina í samræmi við reglur Solvency II (tilskipun Evrópusambandsins um gjaldþol tryggingafélaga) og komu erlendir tryggingastærðfræðingar að því með sérfræðingum félagsins. Fyrir liggur hverjar lágmarksgjaldþolskröfur eftirlitsaðila eru og þá stóð eftir að ákveða hvað stjórnin telur rétt að eigið fé sé þar umfram. Til grundvallar lágu meðal annars þær kröfur sem við þurfum að uppfylla til að njóta áfram sömu matseinkunnar Standard & Poor‘s og mat á nauðsynlegum fjárhagsstyrk svo félagið geti haldið áfram að vaxa. Ákvörðunin varð sú að eigið fé verði 50% umfram tilskilið lágmark með ákveðnum vikmörkum. Við teljum að þannig sé tryggt að félagið sé nægilega vel fjármagnað til að geta sinnt sinni starfsemi, staðið við skuldbindingar og vaxið.“

Hver er stefna stjórnar varðandi arðgreiðslur og endurkaup?

„Á árinu 2013 var sett fram stefna um blandaða leið arðs og endurkaupa og hún hefur nú verið uppfærð til samræmis við endurmat á tjónaskuld og breytta fjármagnsskipan. Við leggjum mikið upp úr gagnsæi hvað þetta varðar; hluthöfum á að vera ljós stefna stjórnarinnar um fjármagnsskipan og hvernig farið er með þá fjármuni sem skapast af starfseminni. Tillaga stjórnar fyrir aðalfund félagsins er að greiddir verði út fjórir milljarðar króna í arð og að auki er stefnt að því að eigin bréf verði keypt fyrir 1,5 milljarða á grundvelli nýrrar endurkaupaáætlunar. Þetta er það mesta sem skilað hefur verið til hluthafa á einu ári í sögu TM. Árið 2013 nam arðurinn 1,5 milljörðum og eigin bréf keypt fyrir tæpar 500 milljónir. Á þessum tveimur árum sem félagið hefur verið skráð í Kauphöll hafa því samtals um 7,5 milljarðar runnið til hluthafa með arðgreiðslum og endurkaupum, gangi allt eftir.“ 

Meðal annarra verkefna stjórnar á árinu var að setja félaginu nýja framtíðarsýn og endurskoða stefnu um samfélagslega ábyrgð.

„Ný framtíðarsýn var mótuð í ljósi breytinga sem orðið hafa. Við settum okkur fimm lykilmælikvarða sem eru arðsemi, samsett hlutfall, kostnaðarhlutfall, helgun starfsmanna og ánægja viðskiptavina. Þetta eru þau leiðarljós sem félagið ætlar að fylgja til framtíðar, viðskiptavinum, starfsmönnum og hluthöfum til hagsældar.

Hvað stefnuna um samfélagslega ábyrgð áhrærir þá ber þess fyrst að geta að snertifletir félagsins við fólk og atvinnulíf á viðkvæmum tímum eru í senn margvíslegir og mikilvægir og ábyrgðin mikil. Auk þess sem hnykkt er á hlutverki TM er lögð áhersla á að draga úr skaðlegum áhrifum af starfseminni, hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og stuðla að aukinni sjálfbærni. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og styður við gildi okkar um heiðarleika og sanngirni. Forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðningur við vaxtarbrodda eru stoðir samfélagsábyrgðarinnar og er það trú stjórnar að með því að leggja rækt við þessa þætti nýtist styrkur TM og þekking starfsmanna til góðs fyrir samfélagið í heild.“