Ávarp forstjóra
Hagnaður TM á árinu 2014 var 2,1 milljarður króna. Afkoma af fjárfestingum var mjög góð en fjöldi ökutækjatjóna og óvenjumörg stærri eignatjón skýra lakari niðurstöðu í vátryggingarekstrinum. Eldsvoðinn í Skeifunni er stærsta einstaka tjón sem TM hefur þurft að mæta í níu ár. Mikill aukning var í tryggingum erlendis og er stefnt að frekari vexti í þeim þætti starfseminnar. Rætt er við Sigurð Viðarsson forstjóra.
Sigurður Viðarsson forstjóri TM
„Rekstrarniðurstaðan árið 2014 var mjög góð. Hún var talsvert betri heldur en endurskoðuð áætlun gerði ráð fyrir og fór nærri upphaflegri áætlun. Vægið milli vátrygginga og fjárfestinga varð þó með öðrum hætti en við reiknuðum með,“ segir Sigurður. „Ávöxtun fjárfestingaeigna var töluvert betri en áætlað var eða rúmlega tíu prósent sem er mjög góður árangur á alla mælikvarða. Til samanburðar má nefna að árið 2013 var ávöxtun fjárfestingaeigna 8,5 prósent sem líka þótti mjög gott.“
Meðal fyrirtækja sem TM fjárfesti í á árinu voru HS veitur og Festi sem er móðurfélag Kaupáss. Þá var fjárfest í sprotafyrirtækjum til samræmis við nýja stefnu TM um samfélagsábyrgð en stuðningur við vaxtarbrodda samfélagsins er ein þriggja stoða hennar. „Tilgangur fjárfestinga í nýsköpun er tvíþættur, annars vegar að ávaxta fjármuni félagsins og hins vegar til að styðja við vöxt og viðgang efnahagslífsins.“
Önnur tveggja ástæðna fyrir síðri afkomu í vátryggingum var aukin tíðni ökutækjatjóna. „Það var fyrirséð að slíkum tjónum myndi fjölga þar sem sagan kennir okkur að mjög sterk fylgni er á milli tjóna og hagvaxtar. Með auknum umsvifum í samfélaginu eykst tjónahætta. Tjónum fjölgaði samt meira en við bjuggumst við.“
Hin ástæðan er óvenjumörg stór eignatjón á árinu. „Þar vegur stórbruninn í Skeifunni þyngst en hann er stærsta eignatryggingamál sem komið hefur upp hjá félaginu síðan 2005. Að auki komu upp nokkur mál þar sem tjón nam tugum milljóna og jafnvel yfir hundrað milljónum. Nokkur svona stærri mál hafa auðvitað mikil áhrif á afkomuna.“
Við hverju má búast á árinu 2015?
„Við gerum ráð fyrir að tjónakostnaður hækki um fimm prósent en iðgjöld um átta prósent. Stærsti hluti iðgjaldavaxtarins mun koma frá útlöndum en erlend viðskipti hafa verið helsti vaxtarbroddur félagsins að undanförnu. Matseinkunn Standard og Poor‘s er forsenda þeirra viðskipta og sú staðreynd að í júlí var horfum félagsins breytt úr stöðugum í jákvæðar gefur okkur tilefni til að ætla að erlend viðskipti geti vaxið enn frekar. Á hinn bóginn gerum við ekki ráð fyrir að afkoma af fjárfestingum verði jafngóð og á síðasta ári. Árangurinn 2014 var óvenjugóður en í áætlunum 2015 reiknum við með að ávöxtun fjárfestingaeigna verði í samræmi við meðaltalsávöxtun markaðarins síðustu ár.“
Meginbreyting varð á reikningsskilaaðferð TM á árinu og hún löguð að kröfum Solvency II (tilskipun Evrópusambandsins um gjaldþol tryggingafélaga) sem tekur gildi 1. janúar 2016. „Helsta breytingin felst í mati á tjónaskuld en Solvency II mælir meðal annars fyrir um að svokallað öryggisálag vátryggingaskuldarinnar sé reiknað með skilgreindum hætti. Þetta er talsverð breyting frá fyrri aðferðum þar sem sveigjanleiki í aðferðarfræði var meiri og hefð var fyrir mjög ríflegu álagi. Fyrir vikið færðust næstum tveir milljarðar króna yfir í eigið fé. Mikil vinna liggur að baki þessari breytingu og öðrum sem Solvency II krefst og er félagið nú að mestu leyti tilbúið undir að tilskipunin verði innleidd um næstu áramót. Í þessu sambandi má líka nefna að á árinu skiptum við fjárfestingasafni félagsins upp í tvo flokka. Áhættuminni fjárfestingum var stillt upp á móti tjónaskuldinni og áhættumeiri fjárfestingar látnar mæta eigin fé. Með því móti liggur skýrt fyrir hvaða eignir koma á móti þeirri skuldbindingu sem tjónaskuldin er og hagsmunir vátryggingatakanna því enn betur tryggðir en áður. Áhættumeiri eignir eru svo í ávöxtun fyrir hluthafana.
TM hlaut Ánægjuvogina á árinu en hún mælir ánægju viðskiptavina íslenskra fyrirtækja. Sigurður segir viðurkenninguna skipta félagið miklu máli og hún sé enn ein staðfestingin á að vel sé staðið að þjónustu og samskiptum við viðskiptavini. „Það er skýrt markmið okkar að veita bestu þjónustuna á tryggingamarkaði og því mjög ánægjulegt að við skyldum hljóta Ánægjuvogina enn eitt árið. Í fjórtán skipti af sextán höfum við orðið efst meðal tryggingafélaga og að þessu sinni bar svo við að við bættum okkur í öllum þáttum og bilið á milli okkar og annarra félaga jókst. Þessi árangur er ekki tilviljun heldur niðurstaða markvissrar vinnu.“
Félagið hlaut einnig Jafnlaunavottun VR á árinu en í henni felst að greidd eru jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. „Það var einnig mikilvægt fyrir okkur að hljóta þá vottun því hún sýnir og sannar að TM mismunar ekki starfsmönnum. Kaup og kjör ákvarðast samkvæmt ákveðnu kerfi sem útilokar að geðþótti eða annað ráði för. Við getum vonandi orðið öðrum hvatning í þessum efnum því það skiptir máli fyrir samfélagið að kynin sitji við sama borð.“